Færsluflokkur: Bloggar
17.8.2007 | 16:18
Rebba gefið frelsi
Við erum búinn að vera með yrðling í uppeldi hjá okkur í þjóðgarðinum í alt sumar. Í gær var honum sleppt inn í þjóðgarði þar sem fundið var gamalt refagreni. Við merktum hann með tveimur eyrnalokkum þannig að við getum betur fylgst með honum. Til að byrja með förum við reglulega að greninu og færum honum eitthvað að éta en svo kemur að því að hann verður að sjá um sig sjálfur og þá er bara að sjá hvort hann spjari sig.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.8.2007 | 17:55
Hvað á að gera um helgina
Hvar verður besta veðrið um helgina Það er alltaf stóra spurningin þegar kemur að verslunarmannahelginni. Ég er viss um að það verði hér á Snæfellsnesi. Ég mæli með því að fólk komi hingað og tjaldi á Arnastapa eða Hellisandi og komi með mér í gönguferðir um helgina. það verður boðið upp á 2 gönguferðir og verð ég Hákon Landvörður leiðsögumaður. Á laugardeginum kl. 14 verður gengið á Svalþúfu og út að Lóndröngum og tekur það 1 klst. Á sunnudeginum verður gengið á Búðum, lagt af stað frá kirkjunni og gengið út að Frambúð og ströndina til baka. Það tekur 2 klukkustundir. Einnig verð ég með Barnastund á Arnastapa á Laugardeginum kl. 11.
Hlakka til að sjá ykkur
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.8.2007 | 14:47
Alþjóðadagur landvarða
Alþjóðadagur landvarða var haldin hátíðlegur í fyrsta skiptið víða um heim í gær 31. júlí. Í tilefni dagsins ætla margar þjóðir að frumsýna heimildarmynd eftir Sean Willmore landvörð frá Warringine Park í Ástralíu. Myndin heitir The Thin Green Line og fjallar um störf landvarða víða um heim. En þessi mynd verður ekki frumsýnd hér á landi fyrr en í haust.
Við landverðir Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls héldum upp á daginn með því að bjóða upp á kvöldrölt frá Arnastapa með ströndinni yfir á Hellna þar sem farið var á kaffihúsið Fjörukaffi. Það mættu átta manns, Þjóðverjar, Svisslendingur og Danir. Fengum fínt veður og gátum frætt fólkið heilmikið um náttúru og þjóðsögur staðarins.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.7.2007 | 16:00
Hollywood mynd á Djúpalónsandi
vorum á göngu á milli Djúpalóns og Dritvíkur á dögunum þegar við sjáum að þyrla lendir við bílastæðið á Djúpalóni. Þetta voru Ameríkanar frá Hollywood að leita að flottum tökustað fyrir ameríska bíómynd. Þeim leist mjög vel á Djúpalónsand og aldrei að vita nema Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull verði miðdepill í Hollywood bíómynd.
En það sem kanarnir klikkuðu á er að fá leifi til að lenda í þjóðgarðinum þannig að engin átti von á því að þyrlan lenti á bílastæðinu á Djúpalóni. Skaðinn sem þyrlurnar geta gert er að þegar þær fljúga nálægt fuglabjörgunum þá fælast fuglarnir og ungar þeirra hrapa niður í sjóinn og drukkna. Dæmi er um að flugvélar eða þyrlur hafi flogið það nálægt fuglabjörgum að þau hafi hreinlega hreinsast af fugli.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.7.2007 | 15:07
Breiðavík er dásamlegur staður að vera á
Fórum 5 drengir saman á vestfirði í liðinni viku og gistum í Breiðavík. Það er einn fallegasti staður sem ég hef komið á. Við gistum bæði í tjaldi og svefnpokaplássi. Þjónustan er alveg frábær og öll aðstaða til fyrirmyndar.
Fyrsta daginn gengum við frá Sjöundá á Rauðasandi og yfir í Keflavík. Gangan tók 9 tíma með nokkrum stoppum og þar með talið 1 1/2 tíma stoppi á kaffihúsi sem er við bæinn Saurbæ. Þar fengum við ljúfengt kaffi og með því. Að því loknu var haldið út á sandinn og þar fórum við úr gönguskónum og busluðum í sjónum, enda steikjandi hiti og sól. Til að komast yfir í Keflavík urðum við að ganga upp úr fjörunni þar sem ekki er fært um fjöru þangað. Gengum gamla þjóðleið sem lá í hlykkjum upp klettana. Í keflavík beið eftir okkur sonur hjónanna í Breiðuvík og keyrði okkur til baka, en hann trússaði okkur á Rauðasand fyrr um daginn.
Gangan um Rauðasand var heldur lengri en við áttum von á svo við fórum bara í stutta göngu daginn eftir um Látrabjarg. Keyrðum svo seinna um daginn yfir í Selárdal og skoðuðum safnið hans Samúels og býlið sem Gísli á Uppsölum bjó. Fórum að því loknu til Tálknafjarðar og borðuðum þar kvöldmat og enduðum í Heitum pottum sem eru rétt fyrir utan bæinn og er opið öllum allan sólahringinn.
Þetta er eftirminnileg ferð og gaman hefði verið að hafa aðeins meiri tíma á þessu svæði. En það kemur sumar eftir þetta sumar. Sjá nýjar myndir í myndaalbúmi
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.7.2007 | 13:35
Skemmtileg vika með fjölskyldunni
Þá er tengdafjölskyldan farinn af nesinu. Þetta er búinn að vera góð vika og mikið búið að ganga. Þess á milli var etið og legið í heitapottinum á Gufuskálum. Veðrið er búið að vera stórkostlegt alla dagana.
Er lífið ekki dásamlegt.
Nú er bara að virkja fjölskylduna mína í því að mæta á svæðið og hlaða batteríin úr orkunni frá jöklinum
Kíkið í nýja fjölskyldualbúmið
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.7.2007 | 17:00
Búðarganga og barnastund í þjóðgarðinum
Vikuleg dagskrá þjóðgarðsins byrjaði um síðustu helgi í blíðskapar veðri. Tengdafjölskylda mín leigði íbúð á Gufuskálum og að sjálfsögðu mættu þau í allar göngurnar. Ég var með göngu á búðum á sunnudaginn og gengum við frá kirkjunni út að Frambúð. Það var steikjandi hiti en sem betur fer smá gola. Við gengum meðfram ströndinni til baka og þar sást til fólks buslandi í sjónum og í sólstrandarfíling.
Á laugardaginn vorum Ég og Þórunn með fyrstu barnastund sumarsins á Arnarstapa. Þó tjaldstæðið hafi verið fullt af fólki mættu ekki nema 5 krakkar. En það var rosa gaman hjá okkur og fórum við í marga leiki.
Þórunn var með göngu á Svalþúfu á laugardaginn eftir barnastundina og þar mættu 32. Gangan tók 1 klukkutíma og var gengið út á Svalþúfu og niður að Lóndröngum.
Á mánudaginn átti ég afmæli og tók ég mér þá frí frá landvörslunni. Við Unnar, Aðalheiður og Skúli fórum í hvalaskoðun frá Ólafsvík og sáum hrefnur og höfrunga sem léku fyrir okkur listir, það var rosa gaman og í fyrsta skiptið sem ég fer í hvalaskoðun. Eftir það fórum við öll fjölskyldan í Stykkishólm út að borða á Narveyrastofu. Unnar minn bauð mér þangað og sjaldan hef ég fengið eins góðan mat. Ég mæli hiklaust með þessum stað. Að því loknu var farið í göngu niður á bryggju og upp á hólminn í þvílíkt góðu veðri. Þetta var frábær dagur sem gleymist seint.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.7.2007 | 15:12
Sungið í Malarifsvita
Opnuð var um síðustu helgi ljósmyndarsýning í Malarifsvita um Þórð á Dagverðará. Haldin var opnunarhátíð með ræðum og söng. Minn maður Unnar Geir Unnarsson söng í vitanum lagið Brennið Vitar. Fólk dreifði sér um vitann og var á öllum hæðum. Unnar var á næst efstu hæð og hljómaði söngur hanns um allan vitann og hljómurinn var eins og í stórri kirkju og leið söngrinn jafnt um allan vitan. Aldrei hafa jafn fagrir tónar svifið um vita á Íslandi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
29.6.2007 | 13:31
Kríuvarpið skoðað
Landvörðum var boðið í fuglaskoðun með tveimur fuglafræðingum frá Stykkishólmi um daginn. Farið var út í Öndverðanes að skoða sjófugla og á Rifi skoðuðum við kríuvarpið.
Fuglafræðingarnir Tómas og Einar eru að rannsaka kríuvarpið á Snæfellsnesi og fengum við að fylgjast með því hvernig þeir fara að því. Þeir voru að athuga hversu langt er í ungarnir klekjast út úr eggjunum. Þeir setja eggin í volgt vatn og sjá þannig hversu mikið eggin fljóta, þ. e. ef eggin fljóta á yfirborðinu þá er mjög stutt í að þau klekist út. Svo er stærðin á þeim mæld.
Krían er frekar sein til í ár og er það sennilega út af fæðuskorti. Eggin eru mjög mismunandi langt á veg komin og sum það stutt að ungarnir úr þeim verða tæpast orðnir nógu þroskaðir í haust til að geta flogið suður á bóginn.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.6.2007 | 14:07
Geggjuð Jónsmessuganga
Farið var í jónsmessugöngu á laugardaginn var og mættu 62 manns. Snævarr Guðmundsson fjallaleiðsögumaður sá um leiðsögn í þessari ferð og vorum við landverðirnir honum til aðstoðar. Við fengum geggjað veður og met þátttaka var. Fólk kom víða að bæði Íslendingar og útlendingar. Ferðin á toppinn tók tæpa 3 tíma og vorum við komin upp rúmlega 12 á miðnætti.
Talsverð umferð snjósleða var á jöklinum og truflaði það talsvert kyrrðina og óbyggðarfýlingin. Útlendingarnir voru mjög hissa á að sjá alla þessa vélsleða þarna innan um göngufólkið enda þekkist það yfirleitt ekki erlendis að það megi aka um á vélsleðum hvar sem er á fjöllum. Hér á landi vantar reglugerðir varðandi þetta og í raun ætti að vera vélalaust tímabil á jöklum landsins svo göngufólk geti notið þess að ganga á jökla.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)