18.6.2008 | 16:26
Refaferð og sólstöðuganga
Það er ýmislegt búið að gerast síðan ég bloggaði síðast, þar á meðal fórum við í refaskoðunarferð á laugardaginn í blíðskapar veðri út í Öndverðanesi. Það mættu 14 manns og við komum auga á tófu sem var í greni sínu. Yrðlingarnir eru ekki orðnir nógu stórir til að fara út úr greninu, en tófan gægðist út.
Við skoðuðum um leið minjar um búsetu á þessu svæði og það sem er mjög merkilegt að skoða þar eru kjalför sem sjást í klettunum í fjörunni eftir margra aldar útræði frá þessu svæði. Kjalförin hafa myndast þegar bátarnir voru dregnir á land.
Einnig fórum við í hellir sem er kallaður brugghellir vegna þess að á Öndverðanes bænum bjó maður sem bruggaði vín og á bannárunum og seldi til útlenda fiskimanna í skiptum við annan varning. Vitað var að þessi maður bruggaði en hellirinn fannst aldrei þannig að ekki var hægt að kæara hann.
Á sunnudeginum var svo farið í blómaskoðunarferð sem gekk mjög vel. Það var rigning rok um morguninn en stytti svo upp rétt áður en lagt var af stað.
Næst á dagskrá hjá okkur í þjóðgarðinum er jökulganga á föstudaginn á sumarsólstöðu. Lagt verður af stað frá jökulhálsinum kl 21:00 og gert ráð fyrir að vera komin upp um miðnætti og horft á sólsetrið. Snævarr Guðmundsson fjallaleiðsögumaður mun leiða gönguna ásamt landvörðum. Mæli með að þú lesandi góður mætir á föstudaginn og sláist í hópinn, þetta kostar ekki neitt. Nánari upplýsingar er hægt að fá á Gestastofu þjóðgarðsins í síma 436 6888.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.