21.6.2007 | 14:02
Ég sá rebba í gær!
Fékk mér göngutúr eftir vinnu á gestastofu í gærkveldi og gekk út á Svalþúfu og niður að lóndröngum. Þegar ég nálgaðist drangana sá ég að þar var yrðlingur að fylgjast með mér og var hinn spakasti. En þegar ég kom að dröngunum hljóp hann inn í grenið sitt. Ég sat þar daggóða stund og beið eftir því að hann kæmi aftur út ásamt systkinum sínum að leika sér en mamma hefur greinilega haldið þeim til hlés.
Ætla að gera aðra tilraun í kvöld að ná betri myndum af þeim. Þeir eru orðnir nokkuð stórir og ekki er langt að bíða að þeir fari að sjá um sig sjálfir, sennilega í lok ágúst yfirgefur tófan þá.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.6.2007 | 16:18
Jónsmessuganga á Snæfellsjökul
Farið verður í Jónsmessugöngu á Snæfellsjökul 23 júní með fjallaleiðsögumanninum Snævarr Guðmundsson. Lagt verður af stað kl. 21:00 frá jökulhálsinum Arnastapa megin. Vonandi verður veður til þess að fara. Við landverðirnir ætlum að mæta. Þetta verður örugglega frábær ferð og spennandi að sjá sólsetrið ofan af jökli.
Léleg mæting var í blómagönguna og eiginlega mætti enginn fyrr en 2 dögum seinna En við Gunna Lára skemmtum okkur vel við að merkja blóminn og nutum veðurblíðunnar. Allir aðrir hafa sennilega verið á 17 júní skemmtun.
Fórum í gær hringferð um Snæfellsnesið með dagskrá þjóðgarðsins sem kom úr prentun í gær. Fórum meðal annars í Stykkishólm og dreifðum dagskránni þar á hótel og Upplýsingamiðstöðvar. Notuðum tækifærið og fórum í sund í veðurblíðunni og fengum okkur kaffi á Narveyrastofu. Einnig lentum við í afmælisveislu í Norska Húsinu og fengum að skoða safnið.
Á leiðinni heim fórum við á Hákarlasafnið í Bjarnarey og skoðuðum safnið og að sjálfsögðu fengum við okkur hákarl
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
16.6.2007 | 14:26
Dagur villtra blóma
Á morgun er samnorrænn dagur villtra blóma og ætlum Ég og Gunna Lára að vera með plöntugreiningakeppni í þjóðgarðinum eða nánar tiltekið við Rauðhól. Þar ætlum við að hittast kl. 16:00 og hver og einn á að greina 20 tegundir sem verða merktar á gönguleið í nágrenni Rauðhóls. Þetta verðu örugglega æsispennandi keppni og vonandi mæta margir. Held það eigi að skína sól á okkur hér á morgun.
Ég er búinn að vera á gestastofu síðustu daga og margt hefur verið um manninn, þá aðallega útlendingar, Ameríkanar og þjóðverjar í meirihluta.
Í dag er Sæmundur með refaskoðunarferð við Lóndranga og ætlaði slatti af fólki að mæta í hana. Það er alltaf stuð hér á nesinu
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.6.2007 | 16:30
Á sólarströnd í Köpen
Fór í smá frí frá landvörslunni í síðustu viku. Ætlaði í útilegu en fann svo ódýra ferð til Köpen á netinu og ákvað að bjóða mínum heittelskaða með. Við fórum á fimmtudegi og komum á mánudegi. Vissi að spáin væri góð en hún varð eiginlega of góð þar sem hitinn var um 30°c allan tímann. Svo úr varð sólarstrandarferð. Nóg er af ströndum í Danmörk og ekki þarf að fara nema út á Amager til að komast á frábæra strönd. Sjórinn var ilvolgur og sandurinn brennheitur, gerist ekki betra. Markmið ferðarinnar var nú bara að ná að mynda smá bjórvömb en því fylgdi svo brúnka og sandur á milli rasskinnanna.
Sjá myndaalbúm " Í Köpen"
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 17:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
3.6.2007 | 15:04
Neon-grænir eldgígar
Ég á mjög erfitt með að gera upp á milli fallegra blóma í íslenskri náttúru. En ég held að ég sé búinn að finna uppáhalds blómið mitt. Það er MELASÓL Papaver radicatum. Það sem mér finnst gera það svo sérstakt er þessi neon- græni litur á krónublöðunum. Það er eins og þau séu sjálflýsandi og plantan er svo greinileg í náttúrunni þar sem hún vex yfirleitt á gróðursnauðum melum.
Melasól sá ég fyrst hér við þjóðgarðinn í vegkantinum við Hellnar. Svo sá ég hana í vor á Saxhól sem er gamall gróðursnauður eldgígur. Spennandi verður að sjá hvort melasólin nái að breiða úr sér um alla gígana sem eru um allt í þjóðgarðinum svo þeir verða kannski sjálflýsandi í framtíðinni.
Melasól er af Draumsóleyjaætt og er núna að byrja að blómstra og er í blóma langt frameftir sumri. Hún er líkust garðasól en er auðþekkt á stórum fjórfeldum blómum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.6.2007 | 13:43
Taktu þitt eigið rusl
Vöknuðum eldsnemma í morgun ég og Linda og ákváðum að fara niður í Hellnafjöru áður en ég færi á gestastofu sem opnar klukkan 10. Við vissum af trjágreinum sem hefur verið kastað í sjóinn einhverstaðar við Hellna og rekið síðan upp í fjöruna. Einhver hefur losað sig við afklippurnar af víði á einfaldan og þægilegan hátt
Ég hélt að það væri liðin tíð að henda drasli í sjóinn hvort sem það er lífrænt eða ekki. En svo er greinilega ekki og við landverðirnir verðu áfram duglegir að hreinsa fjörurnar í þjóðgarðinum með glöðu geði á kostnað skattgreiðenda, enda þíðir ekkert að láta einhverja sóða slá sig út af laginu bara láta þá borga hærri skatt
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.6.2007 | 15:16
Ungar komnir hjá krumma
Þegar ég fór í göngutúr um daginn að Gerðubergi sem er rétt hjá Gufuskálum sá ég að krummi var búinn að gera stórt og myndarlegt hreiður á syllu í berginu. Ég fór upp á klettana sá ég að það voru 5 egg í hreiðrinu. Þegar ég kom svo ca viku seinna voru þar 3 ungar. Ég náði bar mynd af þrem þeirra þar sem erfitt var að komast að hreiðrinu og ná góðum myndum. Krummi var nú ekkert sérlega ánægður með þessa truflun en ungarnir tóku ekki eftir neinu og steinsváfu.
Ég sá líka annað hreiður í Lóndröngunum og held að þar séu einnig 3 ungar, það er erfiðara að sjá upp í það hreiður.
Ég gæti trúað að það séu nokkur fleiri hreiður í þjóðgarðinum því krummi er ansi víða um garðinn og virðist vera meira af honum núna en í fyrra.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.5.2007 | 18:04
Loksins laus við sígaretturnar
Það er loksins komið að því að við tóbaksleysingjarnir höfum meiri rétt en þeir tóbaksháðu. Ég er lengi búinn að bíða eftir þessum degi og maður trúir því varla að þetta sé að gerast. Fyrir ekki svo mörgum árum síðan þótti sjálfsagt að við tóbaksleysingjarnir drægjum ofan í okkur óbeinar reykingar því að hinir þurftu að fá skammtinn sinn hvar og hvenær sem er. Þetta er ótrúlegt og ég mun flagga fyrir þessum degi á hverju ári hér eftir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.5.2007 | 16:52
Sólstrandargleði.
Sumarið kom um helgina, alla vega hér á Snæfellsnesi. Fjöldi manns lagði leið sína hingað á VOR UNDIR JÖKLI. Sandkastalakeppnin gekk rosa vel og mættu 18 krakkar ásamt foreldrum sem margir hverjir sáu um byggingu kastalana með snjóskóflu að vopni sem kom sér mjög vel til að gera stóra kastala.
Nær 200 manns komu í vitann um helgina þar sem ég var yfirvitavörður og tók mig bara vel út. Hugmynd er að setja upp ljósmyndasýningu í vitanum og hafa hann opinn um helgar í sumar.
Á djúpalóni er búið að setja upp ljósmyndasýningu þar sem myndirnar eru festar í klettana víðsvegar um fjöruna og verður sýninginþar í allt sumar.
Nóg um að vera hér í þjóðgarðinum þannig að ég mæli með því að þú mætir á svæðið og heilsir upp á mig.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.5.2007 | 15:10
Vor undir jökli.
Um helgina verður haldin hátíð hér á Snæfellsnesi undir nafninu VOR UNDIR JÖKLI. Það er búið að skipuleggja stóra dagskrá og hluti af því fer fram í þjóðgarðinum.
Meðal annars sem er á dagskrá á morgun er SANDKASTALAKEPPNI á vegum þjóðgarðsins. Ég var skipaður í þá nefnd og fer keppnin fram í Skarðsvík (sjá mynd). Veitt verða verðlaun fyrir bestu byggingarnar og allir fá viðurkenningarskjal. Þetta verður örugglega spennandi keppni og er kannski eitthvað nýtt fyrir okkur íslendingum sem eru ekki vön að flatmaga á íslenskum ströndum.
Einnig verð ég settur í vitavörslu. Alltaf langað að verða vitavörður og nú er tækifærið. Kannski er ég fyrsti hýri vitavörðurinn á Íslandi
.Þannig er að vitinn á Malarifi á að vera opinn almenningi um helgina. Malarifsvitinn var byggður árið 1946 og var vitavörður þar til ársins 1991.
Þetta verður svaka spennandi helgi og verður vonandi að minnsta kosti vorveður hér um helgina.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)