Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull fullur af ferðamönnum!

Öngþveiti á DjúpalónsandiDjúpalónsandur er án ef vinsælasti viðkomustaðurinn í þjóðgarðinum. Um síðustu helgi var besta veðrið sem komið hefur í sumar eða um 20°c, sól og andvari. Bílastæðin við Djúpalónsand anna ekki lengur þessari auknu bílaumferð.

Ég var með göngu á laugardaginn frá Sandhólum um gamla vermannaleið sem liggur að Dritvík og gengum við þaðan yfir á Djúpalónsand. Gangan tók tvo og hálfan tíma. Það var ansi heitt og var því stoppað reglulega til að svala þorstanum.

Í dag var ég með göngu á Svalþúfu og niður að Lóndröngum. Þessi ganga er á ensku og mættu 4 þjóðverjar. Það var ekki eins heitt í dag og undanfarið, en ég lét mig samt hafa það að mæta í  stuttbuxum.Elín, Sunna og Jón Þór

Elín, Sunna og Jón Þór komu í heimsókn til mín á gestastofu í dag eftir gönguna og buðu mér í mat. Sunna steikti kjúklingaleggi og bakaði muffins og smakkaðist mjög vel. Það var sásamlegt að hitta góða vini þar sem maður er fjarri öllum fjölskyldu og vinum meirihluta sumarsins. Það hefur sína kosti og galla að starfa sem landvörður en kostirnir eru fleiri en gallarnir.


Fæða ritunnar skoðuð!

FuglaveiðarRita veidd í þágu vísindanna. Ég fékk til liðs við mig fjóra landverði eftir vinnu í þjóðgarðinum til að hjálpa mér að veiða nokkrar ritur. Við fórum á Arnastapa og veiddum úr Eystrigjá í þetta skiptið. Það gekk mjög vel og veiddum við alls 12 ritur en fengum bara 5 þeirra til að æla upp fæðunni. Ég sá um að veiða þær og settist fram á bjargsbrún til að ná betur til fuglanna. Gunna Lára tók á móti fuglunum og Þórunn setti poka á hausinn á þeim að ælan færi beint í pokann. Ég tók svo nokkrar fjaðrir og setti í umslag. Linda sá um að mynda atburðinn. Riturnar voru ekki ánægðar með þessa meðferð á sér sem ég skil vel en þetta er nauðsynlegt til að komast að því hvað hún er að borða og hvort það er næg fæða í sjónum til að fæða ungana.fuglaveiðar  

Þegar við slepptum ritunum fóru þær strax til baka í hreiðrið og huguðu að ungunum. Hlýtt var í veðri og ungunum hefur líklega ekki orðið kalt á meðan foreldrinu var kippt í burtu í stutta stund. Flestir ungarnir virðast dafna ágætlega og ekki vorum við vör við neina dauða unga. Þó er misjafnt hversu stálpaðir þeir eru. Sumir eru mjög litlir ennþá og enn aðrir ekki komnir úr eggi ef þeir koma þá nokkuð úr þessu.

Við enduðum svo daginn á Hellnum í Fjöruhúsinu og fengum okkur kvöldverð í góða veðrinu.


Rissa tridactyla

Rissa tridactylaRituvaktin í gær gekk vel, en þó var ansi kalt að sitja í 2 tíma á Öndverðanesi við Skálasnaga. Það eru komnir ungar nánast í öll hreiður nema í 8 hreiður á Arnastapa, 7 hreiður á Skálasnaga við Svörtuloft og 3 hreiður í Keflavíkurbjargi. Ég var var við tíðari fæðugjafir núna en í síðustu viku og sumstaðar voru ungarnir orðnir nokkuð stálpaðir. Það virðist því vera nóg æti eins og er í sjónum.

 

 


Gönguferðir í Þjóðgarðinum Snæfellsjökli.

Gönguferð á Búðumþað var mikið stuð í þjóðgarðinum um helgina, mikið af ferðamönnum enda fyrsta helgin í júlí og sumarið í hámarki. Það var fjölbreytt dagskrá hjá okkur landvörðum, barnastund á laugardagsmorgun, og ganga um Dritvík og Djúpalónsand í umsjón Þórunnar. Á sunnudeginum var ég með göngu á Búðum í blíðskaparveðri. Ég fór inn í Búðakirkju í fyrsta skiptið, svakalega falleg kirkja.

Í Ólafsvík var bæjarhátíð ( Ólafsvíkurvaka) og kíktum við þangað á laugardagskvöldið á útitónleika með Hjálmum. Þeir eru alltaf góðir. Tónlistarlífið er í þvílíkum blóma hér á Snæfellsnesinu og eru þetta þriðju tónleikarnir sem ég fer á síðan ég kom hingað 6 júní.  

Á morgun er svo komið að þriðju rituvaktinni og verður spennandi að sjá hvort allir ungar séu komnir úr eggi.


Hvað borðar ritan!

RiturannsóknirÞá var komið að því að veiða ritu og láta hana æla í poka til að komast að því hvað hún er að borða. Ég var smá kvíðin þessum aðgerðum en svo gekk þetta eins og í sögu. Gunna Lára aðstoðaði mig, ég húkkaði fuglinn með stöng sem hefur lykkju á endanum sem fer utan um háls ritunnar. Þegar lykkjan er komin á sinn stað er fuglinum kippt upp á bakkann og þar greip Gunna Lára utan um fuglinn og ég kom með poka og fuglinn ældi í pokann um leið og við slökuðum á lykkjunni.  Einnig tókum við smá fiður af fuglinum og settum í umslag. Gunna Lára með rituRitan á það til að bíta en er ótrúlega róleg og þægilegur fugl við að eiga.

Þetta var mjög skemmtileg aðgerð og markmiðið er að ná að veiða minnst fimm fugla á viku. Í lok sumars verður þetta svo greint. það eru núna komnir ungar hjá flestum þeirra og virðist varpið fara vel af stað, nú er bara að vona að það sé nóg æti í sjónum svo ungarnir komist á legg.


Rituvöktun

Rita með ungaÁ sunnudaginn fór ég snemma að morgni á Arnastapa áður en flestir voru vaknaðir á tjaldsvæðinu. Frétti að það hafi verið mikið fjör þar um nóttina. Ég fékk mér sæti á vöktunarstaðnum mínum við eitt bjargið í sól og 18°c hita. Ég var þar í 2 tíma og fylgdist með hreiðrunum mínum 40 talsins. Það voru komnir ungar í 18 hreiður, ýmist 1, 2 eða 3 ungar í hreiðri. Sjaldnast voru það 3 ungar en oftast 2. Í Svörtuloftum voru ekki komnir ungar í neitt hreiður og í Keflavíkurbjargi voru ungar í 25 hreiðrum. það er athyglisvert að það skuli engir ungar vera komnir í Svörtuloft, en það gæti verð vegna staðsetningar, kannski kaldara á þessu svæði og fuglinn því seinni af stað. Ég var ekki var við að ungunum var gefið á þeim 1 / 1/2 tíma sem ég fylgdist með en vaktaskipti voru í mörgum hreiðrum. En karl- og kvenfuglinn skiptast á að liggja á eggjunum.

þegar ég kom á gestastofu í morgun voru þrastarungar komnir á kreik inni í hlöðu. Þar er skógarþröstur með 3 unga og er greinilega að æfa þá í að fljúga, það gengur mikið á Þarna inni og tístið í þeim glymur í öllu húsinu. Fyrir utan voru ungar maríuerlu komnir á kreik einnig og voru greinilega í sinni fyrstu flugferð. Þeir eru ekki alveg búnir að átta sig á mannskepnunni enda voru þeir ekki mjög smeykir og flögruðu allt í kringum mig.


Strandganga í Þjóðgarðinum Snæfellsjökli

Strandganga 2009Á laugardaginn var farið í strandgöngu frá Skálasnaga að Beruvík undir leiðsögn Sæmundar. Það var dásamleg ganga sem lá um úfið hraun, gula strönd og flatt graslendi. Veðrið var eins og best var á kosið og tók gangan 5 1/2 tíma. Það er alveg magnað hvað er frá mörgu að segja á svo stuttri og torfarinni leið, að fólk skuli hafa dregið fram lífið á svo harðbýlu svæði.

Á leiðinni fundum við hreiður Steindepils og ég rakst á eitt blóm sem ég get ekki alveg áttað mig á hvað heitir, ef einhver þekkir það þá endilega sendið mér línu.

 


Sólbaðsveður.

Selur á HellnumSelurinn Snorri var í sólbaði í fjörunni á Hellnum og stillti sér upp fyrir myndatöku. Veðrið er búið að vera dásamlegt í dag og fór dagurinn í viðhaldsvinnu. Ég fór á Arnastapa og heilsaði upp á riturnar. það eru komnir fleiri ungar, þeir klekjast úr eggjum hver á fætur öðrum. Það verður spennandi að sjá hvort ekki verða allir komnir á kreik á mánudaginn.

Það er einkennilegt hvað lífið hér í garðinum hefur góð áhrif á mann. Það væri óskandi að maður gæti vakað allan sólahringinn á sumrin og nýtt sér sólarorkuna og geymt hana til komandi vetur.


Fyrsta rituvöktunin búin!

ToppskarfurÞegar ég var að telja rituna í Keflavíkurbjargi í gær sá ég þetta hreiður í bjarginu, toppskarfapar með tvo unga. Þetta er í fyrst skiptið sem ég sé toppskarf með unga.

Semsagt fyrst rituvaktin búin og gekk hún mjög vel. Það eru ekki komnir margir ungar enn, en ég sá flesta unga í Keflavíkurbjargi eða 6 ungar í 5 hreiðrum. Á Arnastapa voru þeir 3. Það var frekar kalt í veðri svo það er möguleiki að ég hafi ekki séð ungana þar sem ritan gæti hafa verið að hlífa þeim fyrir kuldanum og haldið þeim undir stélinu.

Næsta vöktun verður á mánudaginn næsta og þá mun ég vonandi einni geta kannað hvað ritan er að éta með því láta hana æla í poka. Það verður fróðlegt að sjá hvernig það gengur!


Nýtt landvarðasumar byrjað!

Gunna Lára við rannsóknirÞá er fjórða landvarðasumarið hafið hér í Þjóðgarðinum Snæfellsjökli. Í sumar verða tvær rannsóknir í gangi á vegum landvarað í þjóðgarðinum. Gunna Lára er að vinna að rannsóknum á lambagrasi og grasvíðir, skoða hvort blómgunartími hafi breyst með hlýnandi veðurfari.

Ég er svo að rannsaka rituna, "hvað veldur viðkomubrest hjá ritunni" það er hvað veldur því að varpið misferst. Ég fór í dag rúnt um garðinn með leiðbeinendum mínum og ákvað staði þar sem ég fylgist með ungauppeldinu þar til þeir yfirgefa hreiðrin. Þetta verður Bs verkefnið mitt ef allt fer að óskum.

Á morgun er dagur villtra blóma og verðu haldið upp á hann hér með gönguferð um Rauðhóla í Eysteinsdal. Ég verð með gönguna að þessu sinni og hefst hún kl. 14:00.

Rita

Lífið er annars bara ljúft hér á nesinu eins og áður. Við erum þrjú sem búum nú á Gufuskálum, ég ásamt Lindu og Þórunni. Við Linda fórum á geggjaða tónleika í gærkveldi Ljótum hálfvtum í Ólafsvík. Ég mæli með þeim!

Nú erum við nettengd á Gufuskálum, þökk sé Lindu, þannig vonandi verð ég duglegur að blogga þetta landvarðasumarið!

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband